Grímur með grímur

Ég get ekki skilið hvers vegna sumt fólk bölsótast svona yfir því að fólk í mótmælaaðgerðum, hylji að hluta andlit sitt. (þessi asnalega málnotkun "fólk í mótmælaaðgerðum" kom til eftir djúpa ígrundun um það hvernig hægt væri að komast hjá því að nota "mótmælendur". Þá hefði mér fundist ég verða að fjalla um kaþólikka líka)

Séu grímurnar notaðar sem skjöldur og skjól til að "fela" sig á bakvið, þegar framinn er einhver gjörningur sem hvorki þolir dagsljósið né undurfagra ásjónu gerandans, þá fordæmi ég gjörðirnar jafnt sem gunguháttinn.

Hitt er eðlilegt og mjög svo skiljanlegt og fjölmargar ástæður geta verið fyrir því að fólk vilji ekki þekkjast á myndum. Sjónvarpsvélar suða og myndavélar blaðamannanna smella. 

Er það ekki skiljanlegt að afi vilji ekki sjást í sjónvarpinu í næsta fréttatíma? Það er ekki líklegt að afastrákur eða -stelpa skilji upp eða niður í tilefninu. (vonandi)

Svipað er með rólyndisömmuna sem horfir á sjónvarpsfréttirnar. Henni brygði örugglega illilega að sjá "barnið í einhverjum óeirðum". Jafnvel þótt "barnið" væri komið á þrítugsaldurinn : )

Fólk getur heldur ekki treyst því að vinnuveitandi og/eða samstarfsfólk hafi skilning á málefninu.

Ég man hvernig breyttist álit mitt á "fullkomna" barnakennaranum mínum, þegar ég sá hann eftir nokkur ár - með sígarettu : (   Þess vegna verður mér hugsað til kennara sem vill alls ekki láta "krakkana sína" í fyrstu bekkjum sjá sig á/í mynd frá mótmælum.  Einhverjum kynni að þykja "óþægilegt" ef hjúkkan, læknirinn, presturinn sæjust í sömu aðstæðum.

Þá getur verið glúrið að hafa klút til að setja fyrir vitin ef von er á gasi. Svo heldur góður trefill vel hita þegar svona kalt er.

Kannski finnst einhverjum líka full ástæða til að troða vel fyrir nefið - svo mikil skítalykt er af mörgum málum í samfélaginu okkar.

MÓTMÆLUM ÁFRAM, MEÐ EÐA ÁN GRÍMU EN EINS OG SKYNSAMT OG SIÐAÐ FÓLK!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Sammála!!!!

Einar Örn Einarsson, 20.1.2009 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband