Toppstöðin - virðingarvert framtak

Hlekkur á Toppstöðina 

Fréttablaðið, 25. jún. 2009

Frumkvöðlarnir verða í Toppstöðinni

mynd
Toppstöðin Landsvirkjun hefur gefið heimild fyrir tímabundin afnot af byggingu varaflstöðvar í Elliðarárdal. Fréttabl/Vilhelm

Borgarráð hefur samþykkt að heimila rekstur frumkvöðlaseturs í svokallaðri Toppstöð í Elliðaárdal.

„Hugmyndin felst í því að skapa hönnuðum, arktitektum og iðnaðarmönnum sameiginlegan vettvang til að skapa nýjar vörur, þekkingu og hugvit í afmörkuðu rými varaflstöðvarinnar," segir í greinagerð með tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra. Semja á við áhugahóp um nýtingu Toppstöðvarinnar og sagt koma til greina að hleypa fleirum inn í húsið.

Tveir fyrrverandi borgarstjórar ítrekuðu í borgarráði að rífa ætti bygginguna.

„Ég hef verið og er enn þeirrar skoðunar að rífa eigi Toppstöðina eins og ávallt hefur staðið til, enda húsið lýti í umhverfinu," segir í bókun Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og tekið er í svipaðan streng í bókun Ólafs F. Magnússonar:

„Ég hvet eindregið til þess að Toppstöðin í Elliðaárdal verði rifin þegar í stað, í fyrsta lagi sem hluti verndunarstefnu gagnvart Elliðaánum í öðru lagi sem hluti atvinnuskapandi verkefnis með skýra framtíðarsýn í þágu komandi kynslóða að leiðarljósi."

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarráðsfulltrúi vinstri grænna, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Þorleifur segir nauðsynlegt að rífa húsið en að það verði borginni mjög dýrt á erfiðum tímum. „Borgarráðsfulltrúi VG telur því skynsamlegt að leyfa starfsemi í húsinu um tíma en það verður jafnframt að vera tryggt að sú starfsemi hamli ekki niðurrifi hússins þegar betur árar." - gar

/leturbreytingar eru mínar/ey/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

rífa þetta óhugnanlega ljóta drasl.. strax

Óskar Þorkelsson, 25.11.2009 kl. 15:32

2 Smámynd: Eygló

ha ha já, það eru margir á því. En finnst þér ekki einhvers/mikils virði sú starfsemi sem þarna fer fram og á að fara fram?
Ég varð svo hrifin af því, sérstaklega í þessu eymdarástandi atvinnuleysis og lausagöngu fólks.

Eygló, 25.11.2009 kl. 17:17

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég skil ekki hvers vegna á endilega að rífa toppstöðina, allra síst þegar hún getur komið að góðu gagni þar sem hún er og eins og hún er. En ég skil heldur ekki af hverju framtíðar sjúkrahús þjóðarinnar á að vera á svo afskekktum stað sem Lsp við Hringbraut er nú og umferðarlega út úr korti, né heldur af hverju flugvöllur allra landsmanna má ekki vera í friði í Reykjavík.

Sigurður Hreiðar, 25.11.2009 kl. 19:16

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég hef ekkert á móti þeirri starfsemi sem þarna á að fara fram.. en húsið sjálft má missa sín og efast ég ekki um að í öllum þeim húsum sem byggða hafa verið í Gróðærinu sé ekki einhverstaðar skot fyrir þess háttar starfsemi..

Ég hef oft velt því fyrir mér afhverju þetta lýti á borginni sé ekki málað í felulitum.. eða notað sem umhverfislistaverk á þann hátt að málverk séu máluð á þá risastóru fleti sem prýða húsið...  þar mætti fá upprennandi listamenn til að láta ljós sitt skína og koma sér á framfæri um leið... en annars á að rífa þennan vibba sem fyrst.. það eitt er atvinnuskapandi um tíma ;)

Óskar Þorkelsson, 25.11.2009 kl. 19:53

5 Smámynd: Eygló

hmm ha ha, þú er ekki slæmur :)

Var einmitt að hugsa um þessa risaveggi. Datt í hug felulitir, en þá yrði þetta kannski of hernaðarlegt.

Mér þætti jafnvel flott að flottir "graffarar" fengju að spreyta sig.... þangað til það verður rifið síðar

Eygló, 26.11.2009 kl. 00:50

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þetta er klárlega ljótasta bygging landsins. veit ekki á hvaða fylleríi og hverra ákvörðun var tekin um að reisa þennan ófögnuð, en klárlega var drukkið eitthvað eitraðra en rósavín á þeirri samkomu.

Brjánn Guðjónsson, 2.12.2009 kl. 21:50

7 Smámynd: Eygló

Ha ha ha, já þeir hafa sennilega drukkið Marshall-sjeníver!

Hjartanlega sammála um útlit þessarar klessu, man ekki eftir ljótara, og það á þessum fallega stað.

Hitt er annað að mér líst frábærlega á að fylla það af orku og kjarki um tíma. Það er ekkert ljótara þótt það sé fullt af iðnum höndum og skapandi skyni.

Eygló, 3.12.2009 kl. 01:15

8 Smámynd: Eygló

Eygló, 3.12.2009 kl. 01:42

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta hús er örugglega eitt ljótasta hús á norðurhveli jarðar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.12.2009 kl. 00:58

10 Smámynd: Eygló

Ég verð víst að viðurkenna þann ljóta sannleika, - ömurlegt. Reyndar ævintýralegt innan í sér : ) Marshall meinti kannski vel á sínum tíma.

Var einmitt þarna á opnu húsi í dag. Dásamlegt að skuli hafa verið leyft iðnum höndum og heiðríkum heilabúum að hreiðra um sig þarna... um tíma.

Hitti "sprengmenntaðan" mann þarna sem missti vinnu sína í fyrra. Hefur barist við peningaleysi og þunglyndi.  Hann sagði að "þetta" hafi hreint og beint haldið í sér lífinu.

Eins gott að manni er ekki fyrirfarið fyrir það eitt að vera ljótur  Það er líka gagn í þeim.
Þótt dónalegt sé að benda :) var mér bent á tvo háaldraða "snillinga" sem yngri menn dýrka þarna. Löngu komnir af "markaðnum" en búa yfir örlátri þekkingu og visku sem hentar enn á markaðinn, kannski núna með krókaleiðum.

Eygló, 14.12.2009 kl. 20:31

11 Smámynd: Garún

Ég hef unnið í þessu húsi og það er geðveikt að innan.  Bara eins og klippt útúr bíómynd.  Þarna er risastór salur niðri, fullt af skrifstofum og geðveikir rafallar og svona hryllingspípulagnir og rafmagnsdót...geðveikt flott.  Notið frekar þessa frumkvöðla til að skipuleggja í staðinn hvernig er hægt að nýta þetta hús, ljótt eða ekki þá er það með sögu.  Opna aðra hliðina alveg og setja fallega lýsingu og gler og þá er komið hugmynd að kaffihúsi í miðjum dalnum fyrir veiðimenn, göngufólk og alla sem leið eiga hjá.  Mála húsið í öðrum lit, setja eitthvað svona funkí á þakið og breyta þessu í ævintýrahús.  Ekki bara rífa allt.  Sjáið hvað það tekur til dæmis langan tíma að rífa og byggja uppá nýtt niðrá torgi. Kaffi ópera og allt það.

Garún, 16.12.2009 kl. 21:07

12 Smámynd: Eygló

Garún, jahá, James Bond hvað?!  Ég var heilluð af þessum skrýtna heimi svona rétt innan við hinn heiminn!

Mér fannst ég stödd í rússneskum kjarnakljúfi inni í "mælaherberginu".

Þau langar að fá "misskilda" listamenn til að prýða húsið að utan; einmitt svona "ævintýra-" eitthvað, - einmitt í þessum dal.
Alveg hægt að breyta þessu í skrýtinn ævintýramola úr þessum "ljóta" klumpi sem er nú til lýta fyrir umhverfið... að flestra mati.

Eygló, 19.12.2009 kl. 18:37

13 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

flott bygging - allavegana þekkir maður ekkert annað þarna - því er þetta þá ljótt

Jón Snæbjörnsson, 19.12.2009 kl. 19:01

14 Smámynd: Eygló

Það er nú einmitt þess vegna sem ég set gæsalappir við "ljóta".
Lýsingarorð sem ekki er hægt að "rökræða" : )

M.a.s. sumt fólk finnst manni svo ljótt að það fer "yfir skalann" og byrjar að verða fallegt.... (ekki tómt grín af minni hálfu)

Svo klassíkin; mér finnst þetta hús gullfallegt miðað við fjárglæfraglæpona, hverra þjóða þeir kunna að vera.

Eygló, 19.12.2009 kl. 21:41

15 identicon

Mér finnst þetta hús einmitt vera komið hressilega hringinn og orðið mjög töff. Sbr. þessa mynd: http://chris.is/?p=1828

Magnað!

Kristleifur Daðason (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 14:20

16 Smámynd: Sneglu-Halli

Eygló! Þótt höll þessi sé ljót að utan er ekki þar með sagt að hún sé ljót að innan. Gættu nú þess, unga kona, að sitthvað er útlit og innræti.

Sneglu-Halli, 24.12.2009 kl. 18:41

17 Smámynd: Eygló

Sneglu-Halli, eitthvað hefurðu mislesið skriftirnar mínar, m.v. þetta innskot.

:)   Ég þarf því ekki að gæta mín - á þessu
:)   Ég er ekki ung kona - lengur
:)   Ég ruglast ekki á hinu innra og hinu ytra - ef "gildi" er annars vegar

Eygló, 26.12.2009 kl. 02:41

18 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég vissi ekki að hús hefðu innræti.... alltaf lærir maður eitthvað nýtt ;)

Óskar Þorkelsson, 26.12.2009 kl. 10:24

19 Smámynd: Eygló

Jú, jú, Óskar, bloggarar sjá í gegnum holt og hæðir, - sumir :)

Æi, ætli þetta sé ekki líking. Kannski erum við of stríðin :)

Eygló, 29.12.2009 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband