9.4.2009 | 00:10
Víðfeðmasti maður sem um getur!
Maðurinn hefur verið gríðarlega stór og mikill; sérstaklega breiður eða langur. Svo voru ósköpin að fólk þurfti að fara í spássitúr "á milli hans" til að ná af honum tali?!
Segi ekki daglega, en mjög oft, heyri ég fólk tala um að það hafi þurft að ganga milli Pontíusar og Pílatusar (sá síðast í texta í fréttunum, og það staðfært yfir í þessa útkomu).
Ekki get ég staðfest að þetta fólk hafi verið til, en sagan segir að Heródes nokkur og Pontíus Pílatus hafi hent sakamanni á milli sín; hvorugur vildi taka ákvörðun eða "axla ábyrgð"
Manngreyið hét Pontíus Pílatus, svo ofangreint hlýtur að vera eina hugsanlega skýringin.
Svona eins og forsetafrúna vantaði leðurstígvel og þyrfti margsinnis að spyrja þá Ólaf og Ragnar.
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkar: Trúmál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Haha, alltaf hægt að hlægja að þessari lífseigu villu sem seint mun leiðréttast alveg, en Herodes hét hann blessaði æðstipresturinn þeirra Gyðinganna þarna á dögum Krists ef ég man rétt!?
Magnús Geir Guðmundsson, 9.4.2009 kl. 02:01
Tók eftir þessu líka.
Þetta var á RUV-inu sem á helst að vera laust við svona.
Sæmundur Bjarnason, 9.4.2009 kl. 02:03
Það breytist ekki margt í henni verslu þó aldirnar líði. Mannskepnan söm við sig.!
Rut Sumarliðadóttir, 9.4.2009 kl. 13:42
Í þeirri ágætu bók Merg málsins má fletta báðum útgáfum upp, það er að ganga frá Heródesi til Pílatusar og að ganga á milli Pontíusar og Pílatusar.
Í skýringu við fyrra orðatiltækið segir: "Í nútímamáli þekkist enn fremur afbrigðið ganga á milli Pontíusar og Pílatusar, þ.e. Heródesi er sleppt og látið líta svo út sem Pontíus og Pílatus séu tveir menn."
Líklega má rekja þetta afbrigði til misskilnings en engu að síður virðist það hafa unnið sér þegnrétt í málinu í tímans rás. Það má sjálfsagt benda á mörg önnur orðatiltæki sem virðast ekki rökrétt, eru sprottin af misskilningi eða þar sem líkingin er óljós, en engu að síður notuð kinnroðalaust.
Mér finnst sjálfsagt að þeir sem brýna fyrir öðrum að tala vandað mál (sem er góð og göfug iðja) haldi slíkum fyrirvörum til haga áður en þeir gera gys að þeim sem nota orðatiltæki á borð við það sem hér um ræðir. Hvað segir Biblían ekki um drambið?
ES: Magnúsi Geir Guðmundssyni vil ég benda á að betur fer á að hlæja að lífseigum villum en "hlægja" að þeim.
Bergsteinn Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 11:16
Bergsteinn Takk fyrir þennan fróðleik, þetta vissi ég ekki. Niðurstaða: Ég mun nota "Heródeserútgáfuna" en sýna hinni útgáfunni umburðarlyndi.
Þetta segi ég í einlægni og e.t.v. sástu að í höfundartexta skrifa ég: "Leiðbeiningar eða leiðréttingar vegna bloggs eru vel þegnar".
Eygló, 15.4.2009 kl. 15:41
Hef einnig verið að undrast í hjarta mínu þennan klofning á Pontíusi Pílatusi og hafði enga hugmynd um að svona væri í pottinn búið. En var það ekki annars hann Kaifas sem var æðsti prestur...
En þetta flokkast nú raunar allt undir uppflettiatriði.
Helga Ág.
Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 18:25
já Helga, það er ekki TÓMT blaður og niðurníðsla á stjórnmálamönnum. Stundum lærir maður... ef maður finnur rétta fólkið.
Svona í framhaldi, þá var skapillur prestur sem við komumst í kynni við. Eftir það kölluðum við hann aldrei annað en "æstaprestinn"
Eygló, 16.4.2009 kl. 23:19
Rétta fólkið? Hvaða fólk er það? Haltu þínu striki, Maíja mín! Skemmtilegur bloggari, það ert þú!
Ástæðan fyrir því að þú komst ekki inn á allar mínar færslur var einfaldlega sú að mér (og öðrum, mér vitrari) ofbauð bullið í sjálfum mér og lokaði ég því (faldi) einhverjar færslur.
En takk fyrir að kíkja á strákinn, gullið mitt!
Björn Birgisson, 23.4.2009 kl. 01:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.